Velkomin til Storytel!

Notendaskilmálar þessir eru mikilvægir og kveða þeir á um reglur sem gilda um samband þitt og Storytel og hafa þannig áhrif á lagaleg réttindi þín og skyldur. Við biðjum þig því vinsamlegast, áður en þú skráir þig í hinn dásamlega heim Storytel, að lesa vandlega yfir skilmála þessa.

NOTENDASKILMÁLAR

Storytel (hér eftir „Storytel“, „við“ eða „okkar“) býður upp á áskriftarþjónustu með persónumiðaða eiginleika („þjónustan“) sem gerir þér (hér eftir nefnt „þú“ eða „áskrifandi“) kleift að fá aðgang að hljóðbókum, rafbókum eða öðrum bókmenntum („efnið“) sem streymt er í gegnum netið í farsímann þinn eða önnur nettengd tæki.

Með því að stofna reikning, hefja fría reynsluáskrift og/eða gerast áskrifandi að tiltekinni áskriftarleið hjá Storytel, með því að kaupa og/eða nota gjafabréf, með því að hala niður, fá aðgang að og/eða nota Storytel smáforritið eða heimasíðu Storytel, með því að nota viðbótarþjónustu eða vöru frá Storytel, eða með öðrum hætti fá aðgang að eða nota efnið, eða einhverja eiginleika eða virkni þjónustu Storytel, eftir því sem við á, ert þú að gera bindandi samning við Storytel og samþykkir að fara eftir þessum notendaskilmálum. Jafnframt viðurkennir þú og samþykkir að Storytel vinni persónuupplýsingar um þig í samræmi við persónuverndarstefnu Storytel.

Notendaskilmálar þessir lýsa því að uppfylltum hvaða skilyrðum þjónustan stendur þér til boða og ganga framar fyrri samþykktum skilmálum og skilyrðum. Það að ganga að skilmálunum er forsenda þess að þú fáir aðgang að þjónustunni og heimild til þess að nota hana. Með því að ganga að þessum skilmálum samþykkir þú og viðurkennir að Storytel megi segja upp samningnum ellegar loka hvenær sem er aðgangi þínum að þjónustunni tímabundið ef þú uppfyllir ekki einhver ákvæði þessara skilmála. Samþykkir þú ekki skilmálana (eins og þeir eru skilgreindir hér að neðan) er þér óheimilt að nota þjónustuna, fá aðgang að og nýta þér efni Storytel.

Til viðbótar, kunna viðbótarnotendaskilmálar að gilda um suma hluta þjónustunnar, svo sem reglur um tiltekna samkeppni, viðbótarskilmálar og -skilyrði fyrir viðbótarþjónustu eða aðrar aðgerðir, eða fyrir tiltekið viðbótarefni, varðandi sérstakar áskriftarleiðir, vörur eða hugbúnað sem er aðgengilegur í gegnum þjónustuna. Ef þörf er á viðbótarskilmálum og viðbótarskilyrðum verða þau kynnt þér í tengslum við viðkomandi aðgerðir eða vörur. Hvers kyns viðbótarskilmálar og viðbótarskilyrði, sem Storytel kann að setja fram, koma til fyllingar skilmálum þessum og munu, ef þau stangast á við þá, ganga framar skilmálum þessum.

Notendaskilmálar þessir, persónuverndarstefna Storytel og hvers kyns viðbótarskilmálar og viðbótar skilyrði Storytel eru hér eftir í sameiningu nefnd „skilmálarnir“.

Ávallt má finna gildandi útgáfu af skilmálunum á heimasíðu Storytel.

1. Aldurstakmark og hæfniskilyrði

1.1.
Til þess að undirgangast skilmálana og stofna aðgang að eða gerast áskrifandi að tiltekinni áskriftarleið hjá Storytel verður þú að:
  • vera a.m.k. átján (18) ára og/eða hafa að öðru leyti heimild og lagalegan rétt til að undirgangast samning þennan samkvæmt lögum þess lands þar sem þjónustan er gerð þér aðgengileg
  • vera búsettur í því landi þar sem þjónustan er gerð þér aðgengileg; og
  • samþykkja að vera bundinn af skilmálunum.
1.2.
Þú verður jafnframt að veita Storytel réttar upplýsingar um þig þegar þú stofnar reikning hjá okkur og veita réttar tengiliðaupplýsingar og velja gildan greiðslumáta. Það er skilyrði fyrir aðgengi að og notkun þjónustunnar að slíkar upplýsingar séu veittar og að skilmálarnir séu samþykktir. Samþykkir þú ekki skilmálana mátt þú hvorki nota þjónustuna, hlutverk hennar og virkni né nýta þér það efni sem þjónustan veitir aðgang að.

2. Þjónustan

2.1.
Storytel býður upp á persónumiðaða stafræna áskriftarþjónustu sem gerir þér sem áskrifanda kleift að streyma og/eða hlaða niður tímabundið hljóðbókum, rafbókum og öðrum bókmenntum á farsímann þinn eða önnur nettengd tæki í gegnum Storytel smáforritið eða annan fyrirfram uppsettan Storytel hugbúnað. Að auki felur þjónustan í sér persónumiðaðar uppástungur, skilaboð og eiginleika sem eru þróaðir og þeim breytt sérstaklega fyrir þig í því skyni að bæta upplifun þína sem notanda. Storytel kann einnig frá einum tíma til annars að bjóða upp á aðgang að ólíkum samfélagsmiðlum, sem kunna að vera opnir eða lokaðir almenningi, til þess að auka og efla enn frekar upplifun þína sem notanda. Aðeins má nota þjónustuna, eins og henni er lýst hér að framan, til eigin nota og ekki í atvinnuskyni, nema annað sé tekið fram í viðbótarskilmálum eða samkvæmt áskriftarleið sem Storytel býður upp á og þú hefur samþykkt.
2.2.
Til þess að nota þjónustuna þarft þú að nota nettengt tæki, sem er samþýðanlegt tæknilegum kröfum Storytel eða stýrikerfi einhverra af samstarfsaðilum Storytel, þar sem forrit Storytel hefur verið sett inn og veita okkur eða samstarfsaðilum okkar upplýsingar um val þitt á greiðslumáta sem samþykktur hefur verið af Storytel og á við á hverjum tíma. Uppfærðan og tæmandi lista yfir tæknilegar kröfur til þess að geta notað þjónustuna, heildarlista yfir samstarfsaðila Storytel og lista yfir samþykkta greiðslumáta má finna á heimasíðu Storytel. Storytel áskilur sér hins vegar rétt til þess að breyta tæknilegum kröfum fyrir notkun þjónustunnar og til þess að breyta, bæta við eða fjarlægja samstarfsaðila og greiðslumáta frá einum tíma til annars. Storytel mun gera sitt besta til að tilkynna þér í tölvupósti eða með tilkynningu innan þjónustunnar um hvers kyns breytingar, sem kunna að takmarka tæknilega möguleika þína til þess að nota þjónustuna. Slíkar tilkynningar verða sendar eigi síðar en þrjátíu (30) dögum áður en slíkar breytingar taka gildi. Storytel áskilur sér rétt til þess að bæta við eða fjarlægja samstarfsaðila og greiðsluaðferð hvenær sem er og án undangenginnar tilkynningar þar um.

3. Áskriftarleiðir

3.1.
Storytel áskilur sér rétt til þess að bjóða upp á þjónustuna í gegnum mismunandi áskriftarleiðir, sem gætu falið í sér en þó ekki takmarkað við: kynningarleiðir, leiðir sem veittar eru af (eða tengdar eru) þriðju aðilum, leiðir sem grundvallast á fjölda samtímis streyma sem í boði eru, eða leiðir sem grundvallast á takmörkunum á því efni sem veitt er.
3.2.
Storytel áskilur sér rétt til þess að bæta við nýjum leiðum, fjarlægja núverandi leiðir eða breyta hvers kyns eiginleikum eða virkni áskriftaleiða frá einum tíma til annars. Ef slíkar breytingar munu hafa veruleg áhrif á gildandi áskriftarleiðir með skaðlegum hætti fyrir áskrifanda, mun áskrifandi fá tilkynningu þar um og hafa möguleika á að segja upp þjónustunni í samræmi við 12. gr. skilmála þessara.
3.3.
Fjöldi þeirra samtíma streyma sem í boði eru undir hverri áskriftarleið fer eftir tegund þeirrar áskriftarleiðar sem þú skráir þig fyrir og verður nánar kveðið á um það í viðbótarskilmálum og -skilyrðum sem samþykktir eru sérstaklega.
3.4.
Uppfærðar upplýsingar um verð og þær áskriftarleiðir sem í boði eru á hverjum tíma í því landi sem þú hefur aðsetur má finna á heimasíðu Storytel. Þar finnur þú einnig kynningu á gildandi áskriftarleiðum og samsvarandi viðbótarskilmála (þ.m.t. hvers konar takmarkanir) sem þú verður að samþykkja sérstaklega til þess að fá aðgang að slíkum leiðum.
3.5.
Upplýsingar um þína gildandi áskriftarleið má finna með því að fara inn á reikninginn þinn á heimasíðu Storytel (þ.e. með því að skrá þig inn á reikninginn þinn hjá Storytel með notendanafni og lykilorði og smella á „mínar síður“).
3.6.
Ef þú getur valið milli fleiri en einnar áskriftarleiðar getur þú breytt gilandi áskrift í aðra áskriftarleið sem Storytel býður upp á í því landi sem þú hefur aðsetur. Þess ber þó að geta að slík breyting tekur gildi frá þeim degi þegar breytingin var skráð og gildir hún þar til eftir næsta endurtekna greiðsludag, áður en skrá má nýja breytingu á sama reikninginn. Þitt venjulega þrjátíu (30) daga greiðslutímabil mun ekki breytast þó breytt sé um áskriftarleið. Þú getur auðveldlega skoðað, stjórnað og breytt aðgangsupplýsingunum þínum og áskriftarleiðum með því að fara inn á reikninginn þinn (þ.e. með því að skrá þig inn á reikninginn þinn hjá Storytel með notendanafni og lykilorði og smella á „mínar síður“).

4. Efnissíun

4.1.
Hvers konar fyrirfram uppsettar efnissíur, svo sem „Kids Mode“ eða aðrar sambærilegar síunaraðgerðir sem í boði eru frá einum tíma til annars, eru boðnar til notenda sem valfrjáls virkni. Lýsigögn fyrir hvern titil efnisins sem Storytel byggir á t.d. að því er varðar aldurstakmörk og greiningu á bókmenntalegri flokkun, kemur frá útgefendum sem Storytel er í samstarfi við. Storytel tekur því enga ábyrgð á, og ábyrgist ekki, að þér þyki síunin, sem byggir á slíkum lýsigögnum, algjörlega fullnægjandi. Enn fremur getur Storytel ekki á nokkurn hátt tryggt að slíkar síur séu fullkomlega réttar eða að þær hafi örugglega síað út allt óviðeigandi efni í samræmi við það sem ætlað var. Ef þú telur síuna ekki fullnægjandi þá biðjum við þig vinsamlegast um að hætta notkun hennar þegar í stað og láta okkur vita hvernig við getum bætt síuna og þjónustu okkar til þess að mæta betur væntingum þínum með því að hafa samband við Storytel í gegnum heimasíðu Storytel. Storytel tekur vel á móti hvers konar athugasemdum varðandi efni sem þér kann að finnast óviðeigandi eða óhentugt í ljósi þeirrar síu sem notuð er eða sem þig grunar að innihaldi eiginleika sem brjóti í bága við lög eða teljast að öðru leyti ólögmætir. Storytel reiðir sig á athugasemdir þínar svo hægt sé að bæta síurnar okkar og þjónustu með tímanum.
4.2.
Ef og þar sem fyrirfram uppsett „Kids mode“ sía stendur þér sem áskrifanda þjónustunnar til boða, hafa stillingar slíkrar síu verið gerðar á grundvelli lýsigagnanna til þess að bjóða aðeins upp á efni sem útgefandi efnisins hefur metið viðeigandi fyrir börn tólf (12) ára og yngri. Þetta þýðir það að efnið sem aðgengilegt er undir „Kids Mode“ getur innihaldið allar bækur og tegundir í efnislista Storytel sem ætlaðar eru börnum á öllum aldri innan þessa aldurshóps. Storytel getur ekki á nokkurn hátt tryggt að sían sé fullkomlega rétt eða að hún hafi örugglega síað út allt óviðeigandi efni í samræmi við það sem ætlað var.

5. Frí reynsluáskrift

5.1.
Áskriftin þín getur byrjað með frírri reynsluáskrift að þjónustunni („frí reynsluáskrift“). Hin fría reynsluáskrift stendur í fjórtán (14) daga eða þann tíma sem tiltekinn er þegar þú stofnar reikning og er henni ætlað að gera notendum kleift að prófa þjónustuna.
5.2.
Þegar þú skráir þig í fría reynsluáskrift viðurkennir þú og staðfestir að þú munir sjálfkrafa færast yfir í mánaðarlega áskrift að loknum reynslutímanum nema þú segir upp áskriftinni að þjónustunni fyrir síðasta dag reynsluáskriftarinnar, en í því tilfelli munt þú ekki verða krafinn um greiðslu og áskriftinni verður lokað.
5.3.
Ef þér er boðin frí reynsluáskrift, er það ætlun Storytel að bjóða þér slíka fría reynsluáskrift einu sinni. Þar af leiðandi getur notandi, sem þegar hefur nýtt sér tilboð um hvers konar fría reynsluáskrift, ekki nýtt frekari tilboð um fría reynsluáskrift. Storytel hefur fullt og óskorðað vald til þess að ákvarða um réttinn til þess að njóta frírrar reynsluáskriftar og Storytel getur takmarkað þann rétt í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun á frírri reynsluáskrift og/eða brot á skilmálunum. Storytel áskilur sér rétt til þess að rifta eða binda endi á fría reynsluáskrift ef Storytel ákvarðar að sínu mati að notandi hafi ekki rétt til þess að njóta hennar. Notandinn má ekki nýta tilboð um fría reynsluáskrift samhliða öðrum tilboðum.

6. Verð og greiðslur

6.1.
Storytel starfar með ótengdum greiðsluþjónustum sem allar þínar greiðslur verða framkvæmdar í gegnum áður en þær eru gerðar upp við Storytel.
6.2.
Áskriftir eru greiddar fyrirfram mánaðarlega þar til áskriftinni er sagt upp. Að því er varðar tímasetningar mánaðarlegra greiðslna, verður þú krafin/n um greiðslu á þrjátíu (30) daga fresti, frá og með þeim degi sem þú virkjar áskriftina, eða í þeim tilvikum þar sem áskrift hefur hafist með frírri reynsluáskrift þá frá þeim degi er slík frí reynsluáskrift rennur sitt skeið nema að áskriftinni hafi verið sagt upp af þér eða Storytel fyrir þann tíma. Í sumum tilfellum getur dagsetning greiðslukröfunnar breyst, til dæmis ef ekki reynist mögulegt að staðfesta gildistíma valinnar greiðsluaðferðar t.d. greiðslukortaupplýsingar.
6.3.
Verð fyrir þjónustuna eru birt á vefsíðu Storytel. Í öllum verðum er innifalinn virðisaukaskattur (vsk.). Hægt er að framkvæma greiðslu með kredit-/debetkorti eða öðrum greiðslumáta (þ.m.t. en ekki takmarkað við greiðslur í smáforritinu) sem Storytel upplýsir þig um á hverjum tíma. Að því er varðar kreditkort getur Storytel synjað um eða hafnað kreditkortum sem ekki eru gefin út í því landi sem þjónustan er boðin þér. Storytel áskilur sér einnig rétt til þess, á hverjum tíma og upp á sitt eindæmi, að hafna tilteknum tegundum kreditkorta.
6.4.
Verð kunna að vera mismunandi eftir þeim greiðslumáta sem notaður er. Ef verð eru mismunandi þá mun Storytel miðla þeim upplýsingum á vefsíðu sinni í tengslum við almennar upplýsingar um verð. Verðin innihalda ekki kostnað vegna gagnaflutninga eða gjöld sem veitandi net- eða fjarskiptaþjónustu notandans kann að fara fram á í samræmi við samning notandans við slíkan þjónustuveitanda.
6.5.
Komi til vanskila eða greiðsludráttar á greiðslum áskilur Storytel sér rétt til þess að loka á aðgang þinn að þjónustunni tímabundið eða varanlega. Komi til þessa biðjum við þig vinsamlegast um að skrá þig inn á heimasíðu Storytel með notendanafni og lykilorði og endurvirkja áskriftina þína á reikningnum þínum undir „Mínar síður“. Ef um greiðsludrátt er að ræða hefur Storytel rétt til þess að krefja þig um greiðslu sanngjarnra dráttarvaxta, áminningargjalda og, ef við á, lögbundins innheimtukostnaðar.

7. Gjafakort

7.1.
Storytel kann að bjóða upp á mismunandi tegundir af gjafakortum. Sum gjafakort eru afmörkuð við tiltekna vöru, sem felur í sér að slík gjafakort eru bundin við tiltekna áskriftarleið í samræmi við það sem kaupandinn ákvað við kaupin. Slík gjafakort verður að nota í samræmi við þá skilmála sem gilda um slíka áskriftarleið.
7.2.
Þegar þú skráir þig sem áskrifanda með því að nota Storytel-gjafakort gengur þú að og samþykkir skilmálana með sama hætti og borgandi áskrifandi gerir, að undanskildum þeim ákvæðum um greiðslur sem kveðið er á um í þessum skilmálum.
7.3.
Sem handhafa Storytel-gjafakorts mun þér verða veittur fullur aðgangur að þjónustunni í samræmi við viðeigandi áskriftarleið allan gildistíma gjafakortsins. Þegar gildistími gjafakortsins rennur út mun aðgangi að þjónustunni sjálfkrafa verða lokað nema þú skráir þig sem borgandi áskrifanda eða innleysir nýtt Storytel-gjafakort. Ef þú hins vegar virkjar Storytel-gjafakort verandi þá þegar áskrifandi að þjónustunni mun Storytel tímabundið fresta kröfunni um greiðslu fyrir þjónustuna þar til gildistími gjafakortsins rennur út en þá munt þú sjálfkrafa halda áfram sem greiðandi mánaðarlegrar áskriftar. Í þeim tilvikum þar sem þetta á við og gjafakortið sem þú virkjaðir tekur til annarrar áskriftarleiðar en þú varst þegar áskrifandi að verður þú sjálfkrafa flutt/ur aftur í síðast notuðu áskriftarleiðina þína. Ef hins vegar slík áskriftarleið grundvallast á gjafakorti sem afmarkað er við tiltekna vöru verður þú sjálfkrafa flutt/ur aftur í síðast notuðu endurteknu áskriftarleiðina sem grundvallast á öðrum greiðslumáta en notkun gjafakorts.

8. Uppsögn á reynslutíma

8.1.
Þegar þú skráir þig sem áskrifanda að þjónustunni, óháð þeirri áskriftarleið sem þú velur, hefur þú fjórtán (14) daga reynslutíma í samræmi við lög um neytendasamninga nr. 16/2016. Reynslutíminn hefst frá þeim degi sem áskrifandi skráir sig fyrir tiltekinni áskriftarleið.
8.2.
Ef þú byrjar að hlusta á eða lesa hljóðbók eða rafbók eða nota þjónustuna á annan hátt samþykkir þú að þú fyrirgerir þér réttinum til þess að falla frá samningi um kaupin samkvæmt rétti þínum um reynslutíma sem fram kemur í grein 8.1 hér að framan. Þú hefur hins vegar rétt til þess að segja upp samningnum í samræmi við grein 12 hér að neðan.
8.3.
Ef þú kýst að afþakka þjónustuna á meðan á reynslutímanum stendur, mælum við með því að þú tilkynnir okkur um það með því að nota formið sem aðgengilegt er á heimasíðu Storytel eða með því að nota hið staðlaða uppsagnareyðublað sem fram kemur í reglugerð nr. 435/2016 um upplýsingar um nýtingu réttar til að falla frá samningi og aðgengilegt er á https://www.stjornartidindi.is og senda það frá því tölvupóstfangi sem skráð er á reikninginn þinn. Þér er hins vegar jafnframt heimilt að nota hvers kyns aðrar leiðir til þess að tilkynna Storytel um þann vilja þinn að hætta við kaupin innan reynslutímans.
8.4.
Komi til þess að þú verðir ranglega krafinn um greiðslu mun upphæðin, sem um ræðir, verða gjaldfærð á reikning þinn innan fjórtán (14) daga frá þeim degi er Storytel barst tilkynning frá þér.

9. Hugverkaréttur

9.1.
Þjónustan er höfundarréttarvarin eign okkar og hefur að geyma höfundarréttarvarða eign leyfisveitenda okkar eða leyfishafa, og öll vörumerki, þjónustumerki, viðskiptaheiti, vöruútlit og önnur hugverkaréttindi innifalin í þjónustunni eða í efninu sem stendur þér til boða í gegnum þjónustuna eru okkar eign eða leyfisveitenda okkar eða leyfishafa ellegar tengdra fyrirtækja. Nema við samþykkjum það sérstaklega með skriflegum hætti má ekki nota eða nýta neinn þátt þjónustunnar eða efnisins, sem hún inniheldur, á neinn annan hátt en sem hluta af þjónustunni sem þér er veitt samkvæmt skilmálunum. Jafnvel þótt þú eigir hið áþreifanlega tæki, sem þú notar til þess að nýta þér þjónustuna höldum við fullu og algjöru eignarhaldi á þjónustunni og öllum hugverkaréttindum sem í henni felast. Við hvorki framseljum eignarrétt eða eignarhald á nokkrum hluta þjónustunnar til þín né framseljum við til þín nokkurn eignarrétt eða eignarhald á nokkrum hluta þess efnis sem aðgengilegt er í gegnum þjónustuna. Ekkert það sem boðið er upp á af nokkru vöruheiti í eign eða undir nytjaleyfi Storytel skal túlka sem svo, að það veiti, beint eða óbeint, nokkurt leyfi eða rétt til þess að nota nokkurt vörumerki, sem birt er í tengslum við eða sem hluti af þjónustunni sem þér er veitt.

10. Leyfi til nýtingar á efni og hugbúnaði

10.1.
Það efni sem þér er aðgengilegt í gegnum þjónustuna kann að vera misunandi frá einum tíma til annars og mismunandi milli ólíkra landa og svæða þar sem þjónustan er aðgengileg. Efnið kann einnig að vera mismunandi eftir staðsetningu þinni þegar þú nálgast þjónustuna. Storytel ber enga ábyrgð á því að þjónustan eða efnið sem aðgengilegt er í gegnum þjónustuna verði tiltækt til notkunar í öðru landi en því sem þú hefur aðsetur og þar sem þjónustan er gerð þér aðgengileg. Upplýsingar um það efni sem aðgengilegt er í þínu landi um þessar mundir, má finna á heimasíðu Storytel. Storytel ber engin skylda til þess að tilkynna þér um breytingar sem kunna að verða á því efni sem í boði er.
10.2.
Þjónustan er stillt til þess að gera notendum kleift að nota þjónustuhugbúnaðinn, efni þjónustunnar, sýndarefni eða annað efni, sem er í okkar eigu eða með nytjaleyfi okkar. Við veitum þér hér með takmarkað, afturkallanlegt leyfi, sem felur ekki í sér einkarétt og er ekki framseljanlegt, til þess að fá aðgang að og nota þjónustuhugbúnaðinn, efni þjónustunnar, sýndarefni eða annað efni til eigin nota einvörðungu en ekki í atvinnuskyni.
10.3.
Þú staðfestir, ábyrgist og samþykkir að þú, eða hver annar sem þú veitir aðgang að þjónustunni í gegnum reikninginn þinn, muni ekki afrita, endurgera, tvöfalda, breyta, skapa afleidd verk, birta, gefa út, dreifa, miðla, útvarpa, senda út, selja, leigja, lána, framselja, dreifa eða á annan hátt nýta í nokkrum tilgangi (í atvinnuskyni eða öðru) nokkuð efni og/eða hluta af þjónustunni eða þjónustuna í heild til þriðja aðila (þar með er talin, án takmarkana, birting og dreifing efnisins á vefsíðu þriðja aðila) án þess að skýrt skriflegt fyrirframleyfi Storytel liggi fyrir eða að slíkt sé sérstaklega heimilað á grundvelli gildandi ófrávíkjanlegra laga.
10.4.
Þú jafnframt staðfestir, ábyrgist og samþykkir að þú, eða hver annar sem þú veitir aðgang að þjónustunni í gegnum reikninginn þinn muni ekki; (1) endurdreifa, sniðganga eða gera nokkra afritunarvörn eða stafræna réttindavarnatækni, sem notuð er í þjónustunni, óvirka; (2) bakþýða, vendismíða, taka í sundur eða á annan hátt færa hvers kyns þjónustu á form sem er læsilegt mönnum; (3) fjarlægja hvers kyns auðkennisupplýsingar, upplýsingar um höfundarrétt eða aðrar réttindaupplýsingar; eða (4) ná í eða nota þjónustuna á ólöglegan eða óleyfilegan hátt eða á einhvern þann máta sem gefur til kynna tengsl við vörur okkar, þjónustu eða vörumerki.
10.5.
Þessi 10. gr. á einnig við um alla þá sem hafa aðgang að þjónustunni.

11. Efni og tenglar þriðju aðila

11.1.
Birting ytri tengla og/eða annarra atriða sem eiga uppruna sinn hjá þriðju aðilum, sem eru aðgengilegir í gegnum þjónustuna, vefsvæði okkar og hvers kyns vettvang sem Storytel býður upp á, bæði innan og utan þjónustunnar, felur ekki í sér stuðning af hálfu Storytel og/eða tengdra fyrirtækja þess við álit eða skoðanir sem slíkir þriðju aðilar setja fram á eða utan vefsvæða þeirra eða samskiptamiðlasíðna. Storytel staðfestir ekki eða ábyrgist nákvæmni, gildi, heilleika eða gæði þess efnis sem finna má á vefsvæðum þessara þriðju aðila. Ennfremur er Storytel ekki ábyrgt fyrir gæðum eða afhendingu vöru eða þjónustu sem er boðin, sótt, fengin í gegnum eða auglýst á vefsvæðum/samskiptamiðlasíðum slíkra þriðju aðila. Sem slíkt mun Storytel ekki vera ábyrgt fyrir efni sem boðið er upp á á vefsíðum/samskiptamiðlasíðum þriðju aðila og Storytel mun, enn fremur, ekki undir neinum kringumstæðum vera ábyrgt fyrir nokkru beinu eða óbeinu tapi eða öðru tjóni, hvort sem orsökin er vanræksla, samningsbrot, ærumeiðing, brot á höfundarrétti eða öðrum hugverkarétti, sem kemur til vegna birtingar, dreifingar eða nýtingar hvers kyns upplýsinga eða efnis sem er að finna á vefsvæðum/samskiptamiðlasíðum þessara þriðju aðila sem tenglar vísa til.
11.2.
Þjónustan kann að fela í sér, vera innbyggð í eða vera í boði í tengslum við þjónustu og efni þriðja aðila. Storytel stjórnar hvorki þjónustu né efni þessara þriðju aðila. Þú skalt lesa vandlega hvers kyns samninga eða notendaskilmála og persónuverndarstefnu sem þér eru kynntar og eiga við slíka þjónustu og/eða efni þriðja aðila.

12. Gildistími og uppsögn

12.1.
Um leið og þú hefur skráð reikning hjá Storytel og skráð þig sem mánaðarlegan áskrifanda samkvæmt tiltekinni áskriftarleið eða prófað fría reynsluáskrift mun áskriftin þín hjá Storytel halda áfram frá mánuði til mánaðar þangað til henni er sagt upp af þér eða Storytel. Nema að þú segir upp áskriftinni þinni veitir þú okkur því heimild til þess að krefja þig um áskriftargjald næsta mánaðar í samræmi við skilmálana og samkvæmt þeirri greiðsluaðferð sem þú hefur valið og skráð hjá Storytel þegar þú skráðir þig fyrir þjónustunni, eða samkvæmt síðari fyrirmælum þínum til okkar.
12.2.
Til þess að segja upp þjónustunni áður en nýjum mánuði er bætt við áskriftartímabilið þitt verður þú að segja upp þjónustunni eigi síðar en daginn áðuren nýr áskriftarmánuður hefst; að öðrum kosti mun áskriftin gilda og vera gjaldfærð hjá þér fyrir mánuð í viðbót áður en henni er lokað.
12.3.
Til þess að segja upp áskrift farðu vinsamlegast á heimasíðu Storytel og skráðu þig inn. Smelltu á „Mínar síður“ og „Aðgangurinn minn“, veldu valkostinn „segja upp áskriftinni“ og fylgdu leiðbeiningunum. Þú getur einnig sagt upp þjónustunni með því að hafa samband við Storytel eftir öðrum leiðum.
12.4.
Til viðbótar við uppsagnarmöguleika Storytel sem kveðið er á um í greinum 5.3. 6.5 og 14.4 eða annars staðar í skilmálunum hefur Storytel rétt til þess að segja upp eða takmarka notkun þína á þjónustunni þegar í stað ef Storytel hefur ástæðu til þess að ætla að þú (eða einhver sem þú hefur veitt aðgang að þjónustunni) hafir brotið gegn skilmálunum eða gildandi lögum, reglum og reglugerðum. Þetta á einnig við ef þú á annan hátt notar þjónustuna á sviksamlegan hátt eða á þann veg að það geti valdið Storytel eða þriðja aðila tjóni.

13. Réttindi og skyldur Storytel

13.1.
Sem hluti af því að veita þjónustuna kann Storytel að hafa samband við þig bréfleiðis, í gegnum síma, með smáskilaboðum, myndskilaboðum, tölvupósti eða beint í gegnum þjónustuna í þeim tilgangi að veita upplýsingar varðandi virkni (þ.m.t. að senda áminningu um gildistíma kreditkorts) og um efni þjónustunnar. Þar sem við á, kann Storytel einnig, nema þú hafir frábeðið þér slík samskipti, að hafa samband við þig bréfleiðis, í gegnum síma, með smáskilaboðum, myndskilaboðum, tölvupósti eða beint í gegnum þjónustuna varðandi kynningar eða svipaða starfsemi, vörur og viðburði sem tengjast þjónustunni.
13.2.
Storytel er einnig heimilt að hafa samband við þig með hvers konar öðrum samskiptaleiðum, t.d. í gegnum samfélagsmiðla þriðja aðila, hafir þú sérstaklega samþykkt slíkt.
13.3.
Öll samskipti á milli Storytel og áskrifandans skulu vera í samræmi við persónuverndarstefnu Storytel.
13.4.
Storytel er ekki ábyrgt fyrir truflunum á farsímanetum eða á þjónustu netþjónustuaðila.
13.5.
Þjónustan er tiltæk allan sólarhringinn, sjö (7) daga vikunnar. Þó ábyrgist Storytel ekki að þjónustan verði ávallt bilana- eða hnökralaus. Ef upp koma bilanir eða truflanir sem hafa áhrif á þjónustuna skal Storytel fá tækifæri til þess að lagfæra þær án þess að það teljist vera samningsbrot, þ.e. brot á skilmálunum. Storytel hefur einnig rétt, innan skynsamlegra marka, til þess að loka þjónustunni, t.d. vegna uppfærslna eða viðhalds.
13.6.
Storytel hefur rétt, að öllu eða nokkru leyti, til þess að framselja réttindi sín og skyldur samkvæmt skilmálunum til þriðju aðila. Storytel hefur einnig rétt til þess að ráða undirverktaka til þess að sinna skyldum sínum samkvæmt skilmálunum. Slíkar breytingar, sem kunna að hafa áhrif á vinnslu persónuupplýsinga þinna, skulu eiga sér stað í samræmi við persónuverndarstefnu Storytel.
13.7.
Storytel getur upp á sitt eindæmi gert breytingar á skilmálunum. Þegar Storytel gerir verulegar breytingar á skilmálunum þannig að það hafi skaðleg áhrif þig mun þér verða greint frá slíku t.d. með því að birta tilkynningu innan þjónustunnar eða með því að senda þér tölvupóst, smáskilaboð eða tilkynningu í gegnum þjónustuna ekki seinna en þrjátíu (30) dögum áður en breytingarnar taka gildi. Í sumum tilvikum munum við óska eftir skýru samþykki frá þér og í sumum tilvikum munum við tilkynna þér með fyrirvara um slíkar breytingar og mun áframhaldandi notkun þín á þjónustunni þá fela í sér samþykki þitt á breytingunum. Þess vegna er mikilvægt að þú lesir vandlega tilkynningar og skilaboð frá okkur. Ef þú á einhverjum tíma óskar eftir því að hætta notkun þjónustu okkar vegna slíkra uppfærslna eða breytinga á skilmálunum er þér heimilt að segja upp áskriftinni hvenær sem er með því að fylgja fyrirmælunum sem fram koma í grein 12 notendaskilmála þessara.

14. Réttindi og skyldur áskrifanda

14.1.
Nema annað leiði af viðeigandi viðbótarskilmálum, er áskrifanda heimilt að hlusta á hljóðbækur, lesa rafbækur og nota efni þjónustunnar til einkanota einvörðungu og ekki í atvinnuskyni. Notendur þjónustunnar mega t.d. ekki spila hljóðbækur fyrir áheyrendur opinberlega. Aðgangsupplýsingar þínar (þ.m.t. en ekki takmarkað við innskráningarupplýsingar) eru einkaupplýsingar og óheimilt er að miðla þeim til annarra.
14.2.
Áskrifandi samþykkir að sniðganga ekki eða reyna að sniðganga þær tæknilegu takmarkanir eða aðrar takmarkanir sem til staðar eru til þess að koma í veg fyrir afritun efnis í þjónustunni og að afrita ekki, hvorki að öllu leyti eða að hluta, hljóðbækur, rafbækur eða annað efni þjónustunnar, jafnvel ekki til eigin nota, nema og að því marki sem slíkt er heimilt samkvæmt ófrávíkjanlegum lögum.
14.3.
Þú viðurkennir og samþykkir að aðgengi og notkun þín á þjónustunni skuli vera í samræmi við skilmálana. Þú viðurkennir og samþykkir jafnframt hið sama varðandi alla þá sem þú veitir aðgang að þjónustunni í gegnum reikninginn þinn. Þér er aðeins heimilt að veita öðrum notenda aðgang í samræmi við skilmálana.
14.4.
Ef þú skráir þig ekki inn á þjónustuna í þrjátíu (30) daga eða meira og hefur tímabundið halað niður efni í forritið, kann Storytel að biðja þig um að skrá sig inn til þess að ganga úr skugga um að þú sért enn með virka áskrift að þjónustunni og uppfæra efnið og innihaldið í þjónustunni. Ef þú neitar að verða við slíkri beiðni áskilur Storytel sér rétt til þess að loka tímabundið fyrir þjónustuna þar til þú hefur staðfest að þú sé með virka áskrift hjá Storytel. Ef tilvist slíkrar áskriftar er ekki staðfest kann Storytel að taka ákvörðun um að halda aðganginum að þjónustunni áfram lokuðum ellegar loka alfarið reikningi þínum.
14.5.
Þú ert ábyrg/ur fyrir því að tryggja að upplýsingar, sem veittar eru við stofnun reiknings, séu réttar og að hvers kyns persónuupplýsingar, sem veittar eru Storytel, svo sem tölvupóstfang þitt, séu réttar. Þú er ábyrg/ur fyrir því að láta Storytel vita um hvers kyns breytingar á hinum veittu upplýsingum, sér í lagi tölvupóstfangi þínu. Líta skal þannig á að öll tölvupóstskeyti, sem Storytel sendir á tölvupóstfang þitt, hafi verið móttekin af þér innan tveggja (2) daga frá því að tölvupóstskeytið var sent.
14.6.
Þú ert ábyrg/ur fyrir því að halda forræði yfir reikningi þínum, fyrir því að koma í veg fyrir óviðkomandi aðgang að þjónustunni og samþykkir að gefa engum öðrum upp aðgangsorðið þitt eða aðrar persónuupplýsingar tengdar við reikning þinn svo lengi sem þú ert áskrifandi að þjónustunni.
14.7.
Í hvers kyns umsögnum um hljóðbækur, rafbækur eða annað bókmenntaefni sem áskrifandi ritar, ber áskrifandi ábyrgð á að tryggja að skoðanir áskrifanda séu settar fram í samræmi við gildandi lög og af virðingu við aðra og að áskrifandinn noti ekki orð eða orðalag sem túlka megi svo að það mismuni eða sé óþarflega móðgandi eða hneykslanlegt á samræðuvettvangi sem kann að vera tengdur Storytel. Það er ennfremur ábyrgð áskrifandans að tryggja að áskrifandinn birti ekki, noti eða deili hugverkum í eigu þriðja aðila eða birti, noti eða deili efni eða athugasemdum sem eru eða kunni líklega að vera talin ólögleg, t.d. ærumeiðandi efni, efni sem sýnir eða gefur í skyn kynferðislega misnotkun eða hatursáróður á netinu.
14.8.
Áskrifandinn hefur engan rétt til þess að framselja réttindi sín og skyldur samkvæmt skilmálunum nema áskrifandinn hafi fengið skriflega heimild Storytel til þess.
14.9.
Áskrifandinn skal ekki nota þjónustuna á neinn þann hátt sem veldur eða er líklegur til þess að valda því að þjónustan verði fyrir truflunum, tjóni eða skerðist að nokkru leyti. Þú skilur að þú, en ekki Storytel, berð ábyrgð á öllum rafrænum samskiptum og efni sem sent er úr tækinu þínu til okkar og að þú verður að nota þjónustuna, tækið þitt og vefsvæðið okkar og hvern þann vettvang, sem Storytel lætur í té bæði innan sem utan þjónustunnar, á viðeigandi átt og í löglegum tilgangi einvörðungu. Þar af leiðandi samþykkir þú að nota vefsvæðið ekki í nokkrum sviksamlegum tilgangi eða í tengslum við glæpsamlegt athæfi eða aðra brotastarfsemi, eða að senda, nota eða endurnota nokkurt efni sem tilheyrir þér ekki eða er ólöglegt, særandi (þar með talið en ekki einskorðað við efni sem er kynferðislega opinskátt eða sem ýtir undir kynþáttahyggju, hatur eða líkamsmeiðingar), blekkjandi, villandi, svívirðandi, ósiðlegt, áreitandi, niðrandi, ærumeiðandi, dónalegt, klámfengið, eða brýtur gegn höfundarrétti, vörumerki, trúnaði, friðhelgi eða öðrum upplýsingum sem á er einkaréttur, einkaleyfisrétti, ellegar skaðar þriðju aðila að öðru leyti.
14.10.
Ef þjónustan eða einstakir hlutar hennar reynast ófullnægjandi eða gallaðir ert þú hvattur/hvött til þess að hafa samband við Storytel með því að nota viðeigandi form á heimasíðu Storytel, með því að senda tölvupóst úr tölvupóstfanginu sem skráð er á reikninginn þinn eða með því að nota aðrar leiðir til þess að láta okkur vita eða leggja fram kvörtun.
14.11.
Áskrifandinn viðurkennir að þjónustan inniheldur efni sem er ekki viðeigandi fyrir eða við hæfi ólögráða barna. Þess vegna samþykkir þú, óháð því hvort þú hafir valið að nota efnissíu (t.d. „Kids mode“ síuna) að láta ólögráða börn ekki fá aðgang að þjónustunni nema þau séu undir þinni umsjón.

15. Samningsaðili

15.1.
Þjónustan er veitt og gerð þér aðgengileg samkvæmt skilmálum Storytel Iceland ehf., einkahlutafélag sem stofnað er á Íslandi með kennitölu 570504-3040 og heimilisfang að Skeifunni 17, 108 Reykjavík. Til þess að hafa samband við okkur eða þjónustudeild okkar, vinsamlegast sendu tölvupóst á netfangið hjalp.is@storytel.com.

16. Önnur mál

16.1.
Þjónustan er veitt þér einvörðungu í þeim tilgangi að njóta afþreyingar, upplýsinga og í öðrum svipuðum tilgangi sem ekki er í atvinnuskyni.
16.2.
Skilmálar þessir heyra undir og skulu túlkaðir á grundvelli íslenskra laga, að frátöldum reglum um lagaskil. Skilmálarnir takmarka þó ekki réttindi þín til neytendaverndar, sem þú kannt að hafa á grundvelli löggjafar þess lands, sem þú hefur aðsetur í, ef þau eru ólík því sem að ofan greinir.
16.3.
Komi upp ágreiningur á milli Storytel og áskrifandans, skulu aðilar byrja á því að reyna að útkljá ágreininginn með samkomulagi. Ef aðilar geta ekki komist að samkomulagi má beina málinu til Neytendastofu, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, https://www.neytendastofa.is/. Að öðrum kosti skal leysa ágreininginn fyrir íslenskum dómstólum.
16.4.
Ef þú ert óánægð/ur með þjónustuna, efnið, sem hún veitir aðgang að, eða með skilmálana er eina mögulega lausn þín sú að hætta að sækja eða nota þjónustuna
16.5.
Til að fá frekari upplýsingar um þjónustuna eða ef þú þarfnast aðstoðar með einhverja eiginleika eða stillingar, ellegar reikninginn þinn, hafðu vinsamlegast samband við hjalp.is@storytel.com.

Síðast yfirfarið 4. maí 2020

Storytel Iceland ehf.