Illugi Jökulsson verður stöðugt forvitnari um sögu íslensku þjóðarinnar og margvísleg önnur fræði þar að lútandi. Hann hefur því fengið til sín fjölda fræðimanna til að spjalla við sig um bækur þeirra og aðrar rannsóknir og varpa ljósi á niðurstöður sem oft eru nýstárlegar og spennandi.
Sverrir Jakobsson sagnfræðingur hefur helgað sig íslenskum miðöldum í rannsóknum sínum og skrifum, þótt hann hafi stundum beint sjónum sínum víðar. Í bókinni Auðnaróðal frá 2016 skrifaði hann yfirlitsrit um sögu Íslands frá 1096 til 1281 og beindi athyglinni einkum að aukinni valdabaráttu höfðingja sem endaði með hjaðningavígum Sturlungaaldar.
Í fróðlegu samtali við Illuga Jökulsson segir Sverrir frá niðurstöðum sínum og ekki síst hvernig áflog höfðingjanna höfðu áhrif á venjulegt fólk og alþýðu á Íslandi. Of lítið hefur verið skrifað af aðgengilegum yfirlitsritum um þennan örlagaríka tíma Íslandssögunnar upp á síðkastið og bók Sverris, sem hann lýsir hér vel, bætti því úr brýnni þörf.
Stígðu inn í heim af óteljandi sögum
Íslenska
Ísland