Illugi Jökulsson verður stöðugt forvitnari um sögu íslensku þjóðarinnar og margvísleg önnur fræði þar að lútandi. Hann hefur því fengið til sín fjölda fræðimanna til að spjalla við sig um bækur þeirra og aðrar rannsóknir og varpa ljósi á niðurstöður sem oft eru nýstárlegar og spennandi.
Unnur Birna Karlsdóttir vakti fyrst athygli í hópi sagnfræðinga fyrir 20 árum þegar hún skrifaði bók um hugmyndir um „mannkynbætur“ sem áttu óþarflega miklu fylgi að fagna meðal Íslendinga, ekki síður en útlendinga, og ekki síst í byrjun 20. aldar. Seinna fjallaði hún um afstöðu Íslendinga á 20. og 21. öld til virkjana og náttúruverndar og hefur einnig skrifað tvær skáldsögur.
Í Öræfahjörðinni fjallar hún um sögu hreindýra á Íslandi en dýrin voru flutt hingað á 18. öld í þeim tilgangi að auka við fábreytt atvinnulíf landsmanna. Þær hugmyndir gengu ekki allskostar eftir og hreindýr dóu út annars staðar en á Austurlandi. Sumum finnst þau enn vera aðskotadýr í íslenskri náttúru, en þau eru nú aðallega nýtt til sportveiða. Unnur Birna segir frá hreindýrunum og sögu þeirra hér í viðtali við Illuga Jökulsson.
Stígðu inn í heim af óteljandi sögum
Íslenska
Ísland