
Dalalíf
Á Nautaflötum í Hrútadal býr Jakob Jónsson stórbúi með Lísibet konu sinni. Sá einn skuggi hvílir á búsæld þeirra og auðsæld að þeim hjónum verður ekki barns auðið. En níu mánuðum eftir að hinn káti og drykkfelldi stúdent Hallgrímur hefur dvalið á Nautaflötum sér til heilsubótar, fæðir Lísibet erfingjann; Jón Jakobsson. Þá hefst mikil örlagasaga, saga af ástum, sorgum og sviptingum í lífi fólksins í Hrútadal í rúm sextíu ár á einum mesta umbyltingartíma í lífi þjóðarinnar. Dalalíf, fyrsta skáldsaga Guðrúnar Árnadóttur frá Lundi, kom út á árunum 1946 til 1951, þegar skáldkonan var um sextugt. Guðrún frá Lundi er einn af meisturum íslenskra sagnabókmennta og hvergi í verkum hennar nýtur frásagnargleðin sín jafn vel og í Dalalífi. Hispurslausar lýsingar skáldkonunnar á fólkinu í dalnum, gleði þess og sorgum, kostum þess og breyskleika, eru heillandi vitnisburður um horfna tíð sem höfðar til lesenda svo lengi sem það er hlutskipti manna að elska, vona og dreyma.